Skilanefnd / bráðabirgðastjórn

Þann 21. mars sl. vék Fjármálaeftirlitið stjórn SPRON frá og skipaði skilanefnd yfir bankann. Um leið fól Fjármálaeftirlitið Nýja Kaupþing Banka hf. að annast innlánsskuldbindingar bankans skv. nánari lýsingu, sjá hér. Með lögum nr. 44/2009 um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var skilanefnd breytt í bráðabirgðastjórn, sem hefur sömu hlutverkum að gegna og skilanefnd.

Slitastjórn

Í júní sl. rann skeið bráðabirgðastjórnar á enda, í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þann 23. júní sl. féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á beiðni bráðabirgðastjórnar SPRON um skipun slitastjórnar. Hlutverk slitastjórnar er að gæta hagsmuna kröfuhafa SPRON með því að gæta að eignum félagsins og hámarka verðmæti þeirra, og annast m.a. innköllun til kröfuhafa í samræmi við 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Spurt og svarað um greiðslujöfnun 


Hvað er greiðslujöfnun?

Greiðslujöfnun er leið til að létta tímabundið greiðslubyrði af reglulegum afborgunum lánsins með því að tengja þær greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverðs. Í greiðslujöfnunarvísitölunni er vegin saman launaþróun og þróun atvinnustigs. Lánið er eftir sem áður bundið vísitölu neysluverðs og breytist höfuðstóll lánsins í samræmi við hana. Meðan greiðslujöfnunarvísitalan er lægri en vísitala neysluverðs eru afborganir lægri sem því svarar. Mismunurinn leggst á sérstakan jöfnunarreikning sem greiðist í lok lánstímans þannig að lánstíminn lengist og afborgunum fjölgar. Lánstíminn verður þó aldrei lengri en þrjú ár umfram lánstíma samkvæmt gildandi skilmálum lánsins þar sem þak verður sett á hámarkslengingu lánsins (sjá svar við spurningunni: Hvað felst í þaki á greiðslujöfnun?).

 


Hvað felst í þaki á greiðslujöfnun?

Lenging lánstíma umfram gildandi lánasamning verður aldrei meiri en þrjú ár. Hafi lánið ekki verið að fullu greitt að þessum þremur árum liðnum falla eftirstöðvar lánsins niður að því gefnu að það sé í skilum við lok lánstímans. 


Við hvaða dagsetningu miðast greiðslujöfnunin?

Fyrsta afborgun eftir greiðslujöfnun miðast við greiðslujöfnunarvísitölu eins og hún var 1. janúar 2008 eða við upphaflega stöðu lánsins hafi það verið tekið síðar. Næstu greiðslur taka síðan mið af þróun greiðslujöfnunarvísitölu sem Hagstofa Íslands gefur út mánaðarlega. 


Hvað ef ég er nú þegar kominn með greiðslujöfnun á lánið mitt?

Nýjar reglur um greiðslujöfnun lána, þar með talið ákvæði um þak (þ.e. þriggja ára hámarkslengingu lánstíma), munu einnig taka til lána sem þegar eru komin í greiðslujöfnun. Þessar reglur munu yfirfærast sjálfkrafa á öll lán í greiðslujöfnun og þarf því ekki að sækja um það sérstaklega.


Er hægt að greiða inn á lán í greiðslujöfnun umfram reglulegar afborganir?

Já, það er hægt eftir því sem kveðið er á um í skilmálum lánsins. Þegar greitt er inn á lán í greiðslujöfnun er umframgreiðslum fyrst ráðstafað til að greiða niður þann hluta lánsins sem snýr að lengingu þess (uppsafnað á jöfnunarreikningi) og síðan verðbætur, vexti og höfuðstól. 


Er heimilt að greiða upp lán sem er í greiðslujöfnun?

Já, það er heimilt. Lánið er þá greitt upp að fullu, þ.e. einnig sá hluti lánsins sem lagður hefur verið inn á jöfnunarreikning vegna hugsanlegrar lengingar umfram upphaflegan lánstíma. 


Hve lengi mun greiðslujöfnun lána standa fólki til boða?

Þessi leið mun standa fólki til boða þar til annað verður ákveðið með lagabreytingu. 


Hvað verður um lánið ef fasteignin er seld?

Líkt og með önnur lán þá eru skuldaraskipti háð samþykki lánastofnunar. Sama gildir um aðrar breytingar á skilmálum láns. Yfirtaka láns er skoðuð í hverju tilviki fyrir sig. Skuld á jöfnunarreikning fellur ekki niður við sölu eignar. Mikilvægt er að aðilar í fasteignaviðskiptum kanni sérstaklega hvort lán er í greiðslujöfnun. 


Lækkar höfuðstóll lánsins?

Nei, höfuðstóllinn lækkar ekki. Markmið greiðslujöfnunarinnar er að lækka greiðslubyrði. 


Er greiðslujöfnun með þaki hagkvæmur kostur?

Greiðslubyrði lána með greiðslujöfnun mun lækka umtalsvert við núverandi efnahagsaðstæður. Þak á greiðslujöfnun láns felur í sér þá tryggingu fyrir lántakandann að lánstími vegna greiðslujöfnunar lengist aldrei meira en nemur þremur árum og ef einhverjar eftirstöðvar eru þá af láninu falla þær niður. Það ræðst hins vegar af þróun greiðslujöfnunarvísitölunnar og aðstæðna í samfélaginu hvort lánstíminn lengist upp í umrætt þak og hvort til afskrifta komi við lok lánstímans.

Bent er á að greiðslujöfnun leiðir til aukins kostnaðar í formi vaxta og verðbóta. 


Er hægt að segja sig frá greiðslujöfnun?

Þeir sem ekki kjósa greiðslujöfnun þurfa að tilkynna það lánveitanda sínum fyrir 20. nóvember vegna gjalddaga í desember.  Þótt lán sé komið í greiðslujöfnun getur lántaki hvenær sem er sagt sig frá henni með tilkynningu til lánveitanda sem þarf að berast eigi síðar en 10 dögum fyrir næsta gjalddaga lánsins.
Þeir sem hafa sagt sig frá greiðslujöfnun en sjá síðar að þeir kunni að hafa hag af henni, t.d. vegna breyttra aðstæðna geta sótt um að fá greiðslujöfnun.
 

Creditors´ secure website