Skilanefnd / bráðabirgðastjórn

Þann 21. mars sl. vék Fjármálaeftirlitið stjórn SPRON frá og skipaði skilanefnd yfir bankann. Um leið fól Fjármálaeftirlitið Nýja Kaupþing Banka hf. að annast innlánsskuldbindingar bankans skv. nánari lýsingu, sjá hér. Með lögum nr. 44/2009 um breytingar á lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki var skilanefnd breytt í bráðabirgðastjórn, sem hefur sömu hlutverkum að gegna og skilanefnd.

Slitastjórn

Í júní sl. rann skeið bráðabirgðastjórnar á enda, í samræmi við 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þann 23. júní sl. féllst Héraðsdómur Reykjavíkur á beiðni bráðabirgðastjórnar SPRON um skipun slitastjórnar. Hlutverk slitastjórnar er að gæta hagsmuna kröfuhafa SPRON með því að gæta að eignum félagsins og hámarka verðmæti þeirra, og annast m.a. innköllun til kröfuhafa í samræmi við 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Úrræði vegna greiðsluerfiðleika - Verðtryggð íbúðalán

Eftirfarandi eru upplýsingar um þau úrræði sem standa lántakendum hjá SPRON til boða vegna greiðsluerfiðleika. Þau úrræði sem eru í boði eru:

 

Athugið að öll þjónusta vegna lána SPRON er hjá Arion banka

Viðskiptavinir sem vilja nýta sér þessi úrræði geta leitað til þjónustufulltrúa í útibúum Arion banka. Hér er listi yfir útibú Arion banka.

Greiðslujöfnun


Greiðslujöfnun er úrræði sem gerir lántaka kleift að lækka mánaðarlegar greiðslur af íbúðalánum sínu. Algengt er að afborgun lækki um 17-20% en á móti getur greiðslubyrði í framtíðinni hækkað. Afborganir eru tengdar við greiðslujöfnunarvísitölu í stað vísitölu neysluverðs.

Fyrir hverja?
Fyrir einstaklinga með verðtryggð fasteignalán sem vilja lækka greiðslubyrði sína.

 Kostir  Ókostir
 • Lækkar greiðslubyrði
 • Greiðslubyrði líklegri til að fylgja launaþróun
 • Er án kostnaðar og hægt að segja upp hvenær sem er
 • Greiðslubyrði í framtíðinni getur hækkað
 • Mögulegt að lán lengist en þó aldrei lengur en sem nemur þremur árum
 • Eignamyndun í húsnæði getur orðið hægari til skamms tíma Hvað geri ég til að fá greiðslujöfnun?

Samkvæmt lögum um greiðslujöfnun fóru verðtryggð fasteignaveðlán sem voru í skilum í nóvember 2009 sjálfkrafa í greiðslujöfnun frá og með gjalddaga í desember 2009. Lántaki sem var í skilum með sitt lán í nóvember 2009 þarf því ekkert að gera.

Lán í vanskilum
Ef lán hefur verið í vanskilum í nóvember 2009 og ekki fengið sjálfvirka greiðslujöfnun getur lántaki sótt um að vanskilum verði skuldbreytt og komið þannig láninu í skil. Eftir það er hægt að sækja um greiðslujöfnun. Smelltu á hnappinn hér fyrir neðan ef þú vilt sækja um greiðslujöfnun.

Að segja sig frá greiðslujöfnun
Þeir lántakendur sem eru með greiðslujöfnun á sínu íbúðaláni geta hvenær sem er óskað eftir að hætta með greiðslujöfnun. Beiðni um afturköllun greiðslujöfnunar þarf að berast í síðasta lagi 15 dögum fyrir næsta gjalddaga lánsins.


Lækkun höfuðstóls í 110% veðhlutfall - Sértækt úrræði


Sækja má um 110% veðsetningaþak á fasteignalánum (erlend lán þurfa þá að skuldbreytast yfir í íslensk lán) eða óska eftir sértækri skuldaaðlögun. Sértæk úrræði eru háð eigna- og tekjumati.

Lækkun höfuðstóls í allt að 110% veðsetningu af markaðsvirði fasteignar samkvæmt verðmati. Lækkunin miðast við greiðslugetu og eignastöðu. Úrræðið er í boði fyrir lántakendur með hvort sem er erlend eða íslensk fasteignalán. Erlendum lánum þarf að breyta í íslensk lán til að af lækkun höfuðstóls getur orðið. Í boði eru verðtryggðir vextir 5,25% eða óverðtryggðir vextir sem miðast við vexti á millibankamarkaði (REIBOR) + 1,50%. Ef greiðslugeta lántaka dugar ekki til að standa undir láni með 110% veðhlutfall, stendur til boða sértæk skuldaaðlögun fjármálafyrirtækja (sjá hér fyrir neðan), þar sem veðhlutfall getur farið niður í allt að 80% af markaðsvirði fasteignar.
 
Fyrir hverja?
Fyrir einstaklinga sem búa við sérstaka erfiða greiðslustöðu. Miðað við að lántaki hafi greiðslugetu til að greiða af láni sem nemur allt að 110% af markaðsvirði fasteignar.

 Kostir  Ókostir
 • Lækkar greiðslubyrði
 • Höfuðstóll lánsins lækkar
 • Eykur möguleika á sölu fasteignar
 • Lántaki verður að standast greiðslumat (eigna- og tekjukönnun) og hafa greiðslugetu til að greiða af láni sem nemur 110% af verðmati fasteignar
 • Lækkun er ekki umfram 110% af verðmati fasteignar


Hvað á ég að gera til að fá lækkun höfuðstóls í 110%?
Sækja þarf um þetta úrræði og veita bankanum heimild til eignakönnunar. Skila þarf inn eftirfarandi gögnum:
 • Afritum af þremur síðustu skattframtölum, staðfestum af viðkomandi skattayfirvöldum
 • Staðfest yfirlit yfir fjárhagsstöðu (FE-yfirlit) frá viðskiptabanka lántaka
 • Launaseðlar lántaka og maka síðustu sex mánaða
 • Afrit gagna sem veita upplýsingar um aðrar tekjur eða skuldbindingar, s.s. meðlög, lífeyrir eða bætur
 • Afrit af síðustu greiðsluseðlum allra lána/skulda lántaka, þ.m.t. raðgreiðslusamningar, yfirdráttarlán, bílalán o.þ.h.

Sértæk skuldaaðlögun


Sértæk skuldaaðlögun er ætluð einstaklingum og felur í sér samning milli kröfuhafa og lántaka um leið til að laga skulda- og eignastöðu lántakans að greiðslugetu hans. Lántakinn greiðir af skuldum sínum eins og greiðslugeta hans leyfir á samningstímanum en kröfuhafar geta fallist á eftirgjöf krafna, hlutfallslega lækkun þeirra eða gjaldfrest á þeim kröfum sem eru umfram greiðslugetu. Gert er ráð fyrir sölu eigna umfram það sem nauðsynlegt er til venjulegs heimilishalds en miðað við að í lok skuldaaðlögunartímabilsins haldi lántakinn hóflegu íbúðarhúsnæði og einum bíl með viðráðanlegri greiðslubyrði. Ef lántaki stendur ekki við greiðslur í samræmi við gerðan samning um skuldaaðlögun geta kröfuhafar ákveðið að skuldaaðlögun falli niður.

Hvað geri ég til að fá sértæka skuldaaðlögun?
Einstaklingur sem leitar eftir skuldaaðlögun skal snúa sér beint til aðalviðskiptabanka síns (banka eða sparisjóðs) sem leiðir skuldaaðlögunarferlið og telst því umsjónaraðili. Með aðalviðskiptabanka er átt við þann banka eða sparisjóð þar sem viðkomandi er með launareikning sinn. 


Úrræði vegna tímabundina greiðsluerfiðleika

 
Lántakendum sem eru í greiðsluerfiðleikum sökum óvæntra tímabundinna erfiðleika vegna veikinda, slyss, atvinnumissis eða af öðrum ófyrirséðum atvikum geta sótt um tímabundna lækkun greiðslna íslenskra og erlendra fasteignalána niður í vaxtagreiðslur eða fastar greiðslur sem taka mið af ráðstöfunartekjum heimilisins.
Forsenda úrræðisins er að greiðslubyrði umsækjanda samkvæmt greiðslumati sé umfram greiðslugetu.
 

Sértækt úrræði samkvæmt lögum

 
Hvað er greiðsluaðlögun?
Leita þarf eftir greiðsluaðlögun með skriflegri beiðni til héraðsdóms. Úrræðið felur í sér heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar sé sýnt fram á að maður sé og verði ófær um að standa í skilum með skuldir sínar. Í gildi eru tvenns konar lög um greiðsluaðlögun:
 
Greiðsluaðlögun fasteignaveðkrafna
Eigandi íbúðarhúsnæðis getur leitað eftir greiðsluaðlögun vegna skulda sem tryggðar eru með veði í húsnæði hans, ef hann sýnir fram á að hann sé og verði um einhvern tíma ófær um að standa full skil á greiðslum. Einungis einstaklingur getur óskað eftir greiðsluaðlögun fasteignaveðlána, ekki félög eða fyrirtæki.

Greiðsluaðlögun skulda sem ekki eru tryggðar með veði
Greiðsluaðlögun óveðtryggðra skulda er úrræði sem einungis er ætlað einstaklingum í verulegum greiðsluerfiðleikum. Greiðsluaðlögun kemur aðeins til greina ef sýnt þykir að vægari úrræði eins og greiðslujöfnun, skuldbreyting vanskila, lenging lána, frestun afborgana og fleira, nægja ekki til að rétta fjárhagsstöðuna og fyrirséð er að viðkomandi geti ekki staðið í skilum af lánum sínum til langframa.
Félög eða aðrir lögaðilar geta ekki óskað eftir greiðsluaðlögun heldur er þetta úrræði aðeins ætlað einstaklingum.
Einstaklingur sem hefur stundað sjálfstæðan atvinnurekstur undanfarin þrjú ár getur sótt um greiðsluaðlögun að því tilskildu að hann sé hættur atvinnurekstri og ljóst að þær skuldir sem rekja má til rekstursins eru tiltölulega lítill hluti af heildarskuldum hans.
 

Yfirlýsing um betri rétt


Slitastjórn SPRON lýsir því yfir að þeir viðskiptavinir bankans sem undirrita skilmálabreytingar húsnæðislána, t.d. vegna greiðslujöfnunar og frystingar, fyrirgeri ekki réttindum sínum til að óska eftir öðrum úrræðum síðar, þ.e. þeim sem bjóðast í framtíðinni, enda uppfylli þeir skilyrði fyrir nýtingu úrræðanna.  Sama gildir um önnur réttindi sem neytendur kunna að njóta samkvæmt lögum. 
 
10.11.2009  Slitastjórn SPRON

Creditors´ secure website